Artótek – List að láni

Ég deildi ferð minni á Artótek á Instagram story í vikunni og fékk þónokkrar spurningar í kjölfarið og ákvað því að henda í stuttan póst um fyrirbærið Artótek og hvernig þetta virkar allt saman. Ég kynntist þessari snilld þegar ég tók saman við unnusta minn en hann hafði stundað það að fá list að láni í einhvern tíma, foreldrar hans sömuleiðis.

Þetta virkar sumsé þannig að maður fær sér árskort á Bókasafni Norræna Hússins sem kostar litlar 2000 krónur (2017) og fær þar með að leigja myndir úr Artótekinu sem staðsett er í kjallara Norræna hússins en taka 3 myndir að láni á hvern korthafa, hverju sinni.

Verkin eru Grafíkverk af ýmsum toga en safnið telur um 600 myndir í dag. Hér sjáið þið nýjasta lánið en ég hef ekki tekið þessa áður. Ég er rosalega ánægð með hana en hún fer einkar vel með græna litnum á veggnum og með fallega kertastjakanum.

Leigutíminn er 3 mánuðir í senn en þá skal skila myndunum og velja sér 3 aðrar óski maður þess, þó má að mér skilst framlengja sum verkanna rafrænt. Snúsist manni hugur eða myndirnar passa ekki er lítið mál að fara og skipta út mynd/um.

Þetta er algjörlega fullkomið fyrir fólk sem enn hefur ekki komið sér upp safni verka á veggina nú og þá sem hafa óhóflega breytiþörf (ég tilheyri líklega báðum hópum)

Mér finnst henta vel að hafa annaðhvort ákveðinn stað fyrir stórar myndir þar sem maður hefur oftast úr nógu að velja í þeirri deild eða hreinlega hafa nokkra staði til að tylla myndum, myndahillur eða einfaldlega skápa eða önnur húsgögn.

Hér sjáið þið nokkrar myndir teknar í flýti mínútu í lokun svona til að gefa smá hugmynd um hvernig þetta lítur út.

Annars finnst mér voða gaman af svon “gallerý veggjum líka en þar finnst mér æði að nota verk barnanna í bland við þá list sem við höfum eignast eins og þessar tvær myndir eftir hann Ísak.

Ég get ekki mælt nógsamlega með því að kíkja á þetta – það má auðvitað fletta í gegnum verkin áður en árskort er keypt til að ganga úr skugga um að verkin höfði til manns en ég held að flestir finni nú eitthvað við sitt hæfi eða hið minnsta eitthvað til að víkka sjóndeildarhringinn.

Kveðjur með ósk um góða helgi!
Þórlaug

Ps. Endilega fylgist með mér á Instagram ég er virk þar og deili oft litlum verkefnum sem ekki lenda í blogg póstum
Allir velkomnir hvort sem ég þekki ykkur eður ei :)

Fífur og Fiður á Facebook