Hitakrampi hjá börnum

Núna er veikindatíð hér á Fróni en hún leggst oft ansi hart á þau allra yngstu sér í lagi þau sem hafa nýlega hafið dagvistun eða skipt um slíka. Þegar eldri stúlkan okkar byrjaði hjá dagmömmum um 12 mánaða aldurinn varð hún mikið og oft veik fyrstu tvo mánuðina. Í einhverjum þeirra veikinda fékk hún hitakrampa en þessi fyrsti krampi sem hún fékk var ákaflega sterkur og frekar langur þó tíminn sé frekar afstæður og kyrrstæður þegar maður sér barnið sitt í slíku ástandi.

Ég þakkaði og þakka enn fyrir að hafa stuttu áður en þetta gerðist lesið lesningu um hitakrampa en fyrir það hafði ég aldrei heyrt af þessu fyrirbæri. Ég hefði líklega ærst með hana líflausa í krömpum í fanginu hefði ég ekki vitað hvað var að gerast og af þeim ástæðum ákvað ég að halda upplýsingum um þetta á lofti við alla sem heyra vilja og hef gert það undanfarin 4 ár.

Hér að neðan dreg ég saman það sem mér finnst aðalatriðin bæði af því sem við lærðum á heimsóknum, spjalli við sérfræðing sem tók okkur í spjall eftir fyrsta stóra krampann og frekari lestur um efnið. Ég mæli sterklega með að fólk lesi sig til um málið en ég linka í góða síðu hér neðar í póstinum

 • Hitakrampi kemur fram hjá allt að 1 af hverjum 20 börnum (5%)
 • Algengast er að börn fá slíka krampa á aldrinum 1-3 ára
 • Krampinn kemur oft fram þegar hitinn hækkar mjög hratt upp og yfir 38°C
 • Undanfari krampans er oft á tíðum óp og barnið stífnar síðan upp, oft með krampakendum kippum
 • Hitakrampi er almennt ekki hættulegur heilsu barnsins en hann getur verið merki um alvarlegra ástand
 • Leitið læknis (hringið í 112) ef barnið fær hitakrampa, sérstaklega í fyrsta sinn sem það gerist.
 • Ef krampinn er sterkur og langur getur það tekið barnið góða stund að ná sér á strik eftir hann – heyrnin er fyrsta skynfærið til að koma til baka svo talið ávallt rólega og hughreystandi til þess
 • Hitalækkandi lyf koma ekki í veg fyrir hitakrampa
 • Hafið börn með hita léttklædd svo kerfið nái betur að kæla sig
 • Látið umönnunaraðila barna sem þetta hefur komið upp hjá vita af því og gefið upplýsingar um hvernig skal bregðast við. Þá á ég við dagforeldra, ömmur, afa, barnapíur o.s.frv.

  Fyrsti krampinn sem stóra sterka stelpan okkar fékk var sá allra sterkasti sem hún fékk en alls urðu þeir fjórir yfir nokkurra mánaða tímabili. Hún gaf frá sér hálfgert hræðslu óp og féll svo í krampa en maður nær ekki sambandi við þau á því stigi.
  Við hringdum á sjúkrabíl sem kom mjög fljótt til okkar en þegar þeir voru komnir var hún hætt að krampa. Eftir að lífsmörk höfðu verið könnuð vorum við flutt uppá barnaspítala með sjúkrabíl til frekari athugana þar kvillar eins og heilahimnubólga og aðrar sýkingar voru útilokaðar.
  Hún var góðar 40 mínútur að komast alveg aftur til síns sjálfs var vönkuð og þreytt en bar engan skaða af þessum né þeim sem síðar komu yfir hana.

  Ég vona að sem allra flestir sem þetta lesa hafi vitað hvað hitakrampar eru en ef einhver er að lesa þetta í fyrsta sinn og yrði minna smeykur fyrir vikið ef þetta kemur upp hjá barni í þinni umsjá.
  Ég vil alls ekki hræða heldur fræða fólk með þessum skrifum og vona að mér takist að koma þessu sómasamlega frá mér – allar ábendingar um betrumbætur eru velkomnar
  Endilega kíkið á frekari lesningar um efnið til að mynda hér hjá Barnaspítala Hringsins

  Með kærleik í hjarta
  Þórlaug

 • Fífur og Fiður á Facebook

  Be First to Comment

  Leave a Reply

  Your email address will not be published. Required fields are marked *