Jólakorta myndin

Jólakorta myndin er mér hugleikin í augnablikinu eflaust hjá fleirum sem eru kannski að jafnaði ögn skipulagðari en ég en til þessa hef ég verið sein til að sinna þessu annars skemmtilega verkefni.

Ástæðan fyrir þessu “tímanleika” (er til orð sem lýsir því að vera snemma í því? Ég finn það ekki í augnablikinu í það minnsta) er líklega sögulegt myndatökuslys á sjöundu stundu. Leyfið mér að útskýra.

Í fyrra (fyrsta desember mánuð sem tveggja barna foreldrar) hummuðum við myndatökuna fyrir jólakortið fram af okkur þangað til helgina fyrir jól en upplagið í prentuðum kortum átti að vera takmarkað það árið. Við vorum búin að koma okkur niður á hvernig myndin skildi líta út en gleymdum að taka eina breytu inn í myndina… það var nefnilega myndefnið.

Plan grunlausu foreldranna var að dæturnar væru í jólasveinku kjól, í eins buxum fölbleikum glimmer buxum, á tásunum í fallegu spariskónum sínum. Skotið átti að vera af fótum barnanna þar sem þær stæðu (þeirri yngri haldið augljóslega enda bara 6 mánaða) í fallega gamla stiganum á þáverandi heimilinu.

Eldra myndefnið er oftast alveg til í myndatöku en var að þessu sinni meira en lítið ósamvinnuþýtt. Hún fór jú í jólasveinku kjólinn en hún vildi vera í rauðum leggings (í stíl við kjólinn sjáið þið til) og í græunum sokkum (því það er jú hætta á hælsæri sértu ekki í sokkum í skóm) girta yfir buxurnar…. Mamman var eitthvað viðkvæm fyrir svona dillum á þessum tímapunkti og tapaði svoldið kúlinu eftir að vera búin að reyna að semja (ENN einusinni þann mánuðinn NB) og sat í fýlu á tökustað. Já ég veit – þroskað. En svona er ég mennsk.

Eftir tuð og taut var ákveðið að taka bara myndina svona og vinna með það. Já finnst þér að það hefði nú verið sniðugt að gera það bara strax, akkúraaaat. Takk, mér líka.
Sú myndataka endaði þó ekki heldur eins og það var planað og “jólakortið” í fyrra endaði því svona án allra uppstillinga – litla systir sem var sökuð um að pota í augað sá um að skaffa þessa skemmtilegu mynd.

2014

Úr þessu hefði mátt mæta ef tíminn hefði verið fyrir hendi – sjáiði tenginguna við tímasetninguna þetta árið?

Okkur hefur þó alveg tekist til með fremur skömmumfyrirvara, 2013 (1 barn á heimilinu og ENGIN fyrirsæta) hentum við þessu saman og tilkynntum í leiðinni tilvonandi stækkun fjölskyldunnar með fjórða skóparinu og vísunni. Þetta var bara korter í jól og við ánægð með útkomuna.

Þessi hefð að semja vísu varð til þegar við gerðum fyrsta fjölskyldukortið okkar sem þið sjáið hér að neðan. Okkur þykir þetta skemmtileg hefð sérstaklega í ljósi þess að þegar við vorum að kynnast skrifuðumst við á í bundnu máli í dágóðan tíma.

2013

Þessa mynd áttum við frá ferðalagi sumarsins en hún er tekin í predikunarstól í afvígðu kirkjunni Stöðvarfirði sem nú er hægt að gista í. Það var ákveðið fljótlega eftir að myndin var tekin að þetta væri jólakortamyndin þetta árið og vísan rann auðveldlega á blað hjá okkur.

Jólakort 2012

Þessi fyrsta jólakortamynd er tekin í September en við þurftum að nota gallann á meðan hann passaði sem og meðan veðrið væri nægilega gott til að vera svo léttklæddur. Við drösluðum gamla sófanum útí garð og úr varð myndataka sem var gífurlega erfitt að velja mynd fyrir kortið.

2011

Nú höfum við sumsé ákveðið hvernig við stefnum (takið eftir STEFNUM shííís hvað ég er orðin sjóuð í sveigjanleikanum) erum byrjuð að hripa á blað hvernig vísan gæti litið út og allt. Með öllum hummumm og athyglisbrests köstum sem við fáum ættum við að geta komið með jólakveðju að okkar hætti þetta árið.

Þið fáið jólakveðjuna eftir 3 og hálfan mánuð, spennið beltin

Sveigjanlegar kveðjur,
Þ

Ps ég held ég hlusti á Suffjan Stevens jólalag á morgun

Fífur og Fiður á Facebook

One Comment

Comments are closed.