Kornfleks marengs terta með ananas

Þessi terta er í topp 5 allra tíma hjá mér og mikið fleirum reyndar en hún er úr handraði móður minnar og gott ef ekki móður hennar, nöfnu minnar. Stökkur kornfleks marengs með kókos með ananas rjóma… einfalt en svoo sjúklega gott gott!

Kornfleks marengsbotnar
4-5 eggjahvítur
2 bollar sykur
4 bollar kornfleks
1 1/2 til 2 bollar kókosmjöl
1 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft

Millilag
Rjómi
Ananas kurl og svolítið af safanum

Eggjahvítan þeytt og sykrinum bætt við smátt og smátt
Öðrum hráefnum er svo hrært saman við eggjahvítuna og sykurinn

www.fifurogfidur.com Space - moon themed birthday party - 6 ára geim - tungl afmæli

Blöndunni hellt í 2 vel smurð bökunarform, við notum gömlu þunnu álformin með lausa botninum og þetta er síðan bakað við 180°C í 20-25 mínútur

Botnarnir þurfa að kólna vel áður en millilaginu er skellt á enda heitur þeyttur rjómi ekki mjög lekker. Botnana má vel gera degi áður en þeir skulu notaðir, nú eða kippa úr frysti ef því er að skipta.

Þá er komið að því að setja botninn á diskinn sem bera skal fram og og ananaskurli og svolítið af safanum skellt á og þeyttum rjóma svo smurt á eftir smekk – mér persónulega þykir nokkurra sentímetra lag við hæfi.

Hinum marengsinum svo skellt ofaná og voila þú ert kominn með ljúffenga Kornfleks tertu.

Svo má nota þetta í hin ýmsu þemu eins og sést á þessum myndum mínum úr afmælum stelpnanna sem hafa áður sést hér á blogginu. Hér var smá rjóma skellt ofaná líka þar sem hann lék hlutverk skýja

Ef eitthvað er óljóst þá er auðvitað velkomið að spyrja!

Prófa um næstu helgi?

Kveðja,
Þórlaug

Fífur og Fiður á Facebook