Takk & Til hamingju

Kæra/i þú

Fyrsta árinu af þessu litla gæluverkefni mínu – blogginu Fífur & Fiður – er nú lokið en það var einmitt markmið sem ég setti mér síðustu áramót. Að þora að láta verða að því að prófa, láta verða að þessum litla draum mínum og hætta að hugsa um að ég hefði ekkert að segja og að enginn myndi nenna að fylgjast með.

Meiri hluti lesandanna er að ég held sé óhætt að segja ættingjar, vinir og kunningjar en mér þykir alltaf voða vænt um að sjá að fólk sér að kíkja á skrifin – kunnugir sem ókunnugir.

Annar tilgangur bloggsins að ýta á eftir mér í að framkvæma hluti sem mig langaði að gera og hrönnuðust upp á Pinterest borðinu mínu. Það hefur gengið svona upp og ofan – upp fyrri hluta ársins en meira niður núna seinni hluta þess eftir að ég hélt aftur til vinnu. Það er bara allt í lagi og ég er þess fullviss að eftir því sem stúlkurnar mínar eldast muni tími og orka leyfa meiri framkvæmdarkraft á ný.

Ég óska þess innilega að þú kæri lesandi látir drauma þína og þrár verða að veruleika á komandi ári – setjir niður á blað hvað þig langar að gera og hvaða leið þú ætlar að því markmiði.

Gleðilegt nýtt ár megiru alls góðs njóta
og upp standa ef um lífið muntu hnjóta

Takk fyrir að fylgja mér eftir í þessu verkefni mínu undanfarið ár og ef þú ert nýkominn vertu velkominn og ég vona að þú finnir eitthvað sem þér líkar og deilir með þeim sem þú heldur að gætu haft gaman af þessu pári mínu.

Með þakklæti í hjarta læt ég hér fylgja uppáhalds lagið mitt þessa dagana:

Kærleiks kveðjur,

Þórlaug

Fífur og Fiður á Facebook