Tólin í Uppeldinu Sjónrænt er Vænt (taka tvö)

Þar sem það varð smá crash á heimasíðunni minni á mánudaginn þarf ég að setja þennan póst inn aftur. Þið bara sleppið því að lesa ef þið eruð a)búin að lesa félagsfærni sögu póstinn minn b)hafið ekki áhuga á því. Þið hin endilega kíkið við ef þið voruð ekki búin að sjá þennan.

Barn er ekki það sama og barn – djúpt finnst þér ekki?

Ég fékk í hendurnar sérlega ákveðin eintök með sterka, klára og skemmtilega (oft) persónuleika sem eiga ef rétt er haldið á spilunum eftir að verða eitthvað stórbrotið (engin pressa samt)
Ekki misskilja mig – dætur okkar eru báðar tvær dásamlegar mannverur sem gengur almennt bara stórvel með – stundum þurfum við að hafa ögn meira fyrir friðsemdinni en gengur og gerist og það er alveg í lagi.

Haustin hjá þeirri eldri undanfarin 3 ár hefur verið mikið um eldsumbrot í litla kroppnum – sem oft virðist ekki nægilega stór fyrir allan þennan persónuleika sem þá gýs og á erfitt með að ná sér úr aðstæðunum. Nágrannar okkar geta vottað fyrir þetta – greyið fólkið er örugglega við það að hringja á barnavernd reglulega í sérlega hljóðbæru húsi…

“Slepptu mér ég er að kafna, waaa waaa waa, mamma þú ert að kæfa mig” hljómaði til að mynda hátt og skýrt kl 7:30 í síðustu viku til að mynda. Hún vildi sumsé ekki fara í leiksskólann því litla systir átti að vera veik heima. Ég hélt henni niðri í reiðiskastinu og knúsaði hana þegar allt annað hafði þrotið (dreifa huganum, gleði málmbandið, röksemd, segjast skilja osfrv.) og sagði rólega en líklega stundar hátt “þú ert ekki að kafna, ég er að knúsa þig”

IMG_5311

Ég veit núorðið að það þýðir ekki að tala um eldsumbrotin sem við upplifum við alla – margir hafa aldrei séð þessa hlið á börnunum okkar (góður framheili sem heldur þeim á mottunni í kringum aðra sjáið til) og margir ekki séð svona í barni almennt. Ég veit líka að allir segja börnin sín erfið á stundum (sem þau eru eðlilega) og allir hafa bara sína reynslu að miða við sem þýðir að það erfiðasta sem þú upplifir er það sem þú mátar við aðra. Í heiminum eru til stuðningshópar fyrir foreldra barna með sterkan vilja… ætli ég finni einhverja í íslenskan slíkan hóp…?

Ég er talsmaður þess að maður segi hlutina eins og þeir eru án þess þó að velta sér endalaust uppúr vandamálunum – vinna frekar að lausnum. Mér þykir því gott að heyra annarra manna reynslu, bæði til að læra og tileinka mér nýjar aðferðir til að máta við okkur enda sífellt að finna upp hjólið í leið að jafnvægi í heimilislífinu. Engin aðferð dugar að eilífu svo eins gott að maður sé á tánum.

IMG_5207

En tilgangur þessa póstar er einmitt að deila einni lausn – ekkert nýtt undir sólinni auðvitað – en sniðugt tól í að tækla aðstæður sem reynast erfiðar sí endurtekið. Tólið kallast “Story Creator” og er app fyrir IOS. Það eru án efa til mörg sambærileg forrit en þetta er það sem ég nota sem stendur eftir meðmæli frá dásamlegri vinkonu minni.

Félagsfærnisögur og styrkingar kerfi virka – það er vitað. Sjónræni parturinn er þar mikilvægur en það hjálpar börnunum mikið að sjá hlutina sjónrænt. Mð þessu appi er auðvelt að gera það annaðhvort með gömlum myndum úr símanum eða taka myndir og bæta inn eftir því sem sagan er búin til. Sagan þarf ekkert að vera flókin – hún er það í það minnsta ekki hjá mér.

Í þessu tilfelli erum við að vinna með að enda heimsóknir glöð í geði og með bros á vör en við vorum við það að gefast upp á hitta vini og að heimsækja vini hennar sem og fjölskyldur okkar.

“Sagan” í appinu er í raun bara myndræn uppröðun á því hvað við viljum sjá gerast við lok heimsóknar og er ekki yfirfarin af sérfræðingum eða rétta leiðin fyrir neinn annan en okkur. En hún var einmitt það – rétt fyrir okkur allavega á þessu augnabliki. Síðan hafa orðið fleiri sögur og munu verða fleiri. Það er að mörgu að huga með svona sögur og ég mæli með að fólk lesi sér smá til eða fá ráðleggingar til að mynda frá fróðri manneskju á leiksskólanum.

Þar sem ég get ekki deilt linknum inná appið þá dikta ég þetta ca. upp eins og þetta er þar hér að neðan:

Það er gaman að hitta vini sína

IMG_5269

Svo kemur að því að við kveðjum og förum heim, við látum þig vita 10 mín áður

IMG_2557

Við kveðjum vini okkar með glöðu geði, bros á vör og þökkum fyrir okkur.

IMG_1309

Mamma og pabbi hjálpa þér að muna og mega minna þig á 3svar sinnum (mælt með 5 áminningum á þessum aldri en 3 er auðveldara fyrir hana að meðtaka, þurfti bara 1 skipti í fyrri heimsókninni og við sínum þetta á fingrunum) Sýnið endilega á fingrunum “nú er ég búin að minna þig á einu sinni – þá eru 2 skipti eftir. Nú er ég búin að minna þig á tvisvar, þá er eitt skipti eftir o.s.frv.

IMG_0032

Þegar það gengur vel þá líður öllum vel í hjartanu

IMG_1976

Þegar kveðjustund í lok tveggja heimsókna hefur gengið vel þá gerum við…..

IMG_5356IMG_5356

í þessari fyrstu prufu var það skautaferð í Laugardalinn. Gott að hafa stór verðlaun í fyrsta sinn sem svona er notað til að þau tengi.
Næst verða það 3 heimsóknir til að fá verðlaun en ég leyfði henni að velja og það var popp og löng bíómynd sem varð fyrir valinu. Þarnæst hugsa ég að við söfnum 5 heimsóknarendum og verðlaunin verða svo smám saman minnni og á endanum detta út þegar það er komið í rútínu að vel gangi.

Það er margt sniðugt hægt að gera sem kostar ekkert eða lítið sem verðlaun – eðli málsins samkvæmt er betra að hafa þetta eitthvað sem er ekki hversdagslegt fyrir þeim og að minni reynslu er samverustund gullin. Nokkrir hlutir svona sem poppa upp eru að fara og gefa öndunum brauð, ísferð, baka köku og skreyta, spila spil, fjöruferð, bíómynd og popp, föndurstund, ferð í apagarðinn, keila, hjólaferð með nesti, strætóferð útí buskann, sund í nýrri sundlaug, klifurhúsið (ódýrt á sunnudagsmorgnu (kl 11) fyrir fjölskyldur), bogfimi, tjalda inní stofu og gista þar saman og svo mætti endalaust telja. Ert þú með einhverja brilliant hugmynd til að deila?

Ég geri ráð fyrir að ef þú hefur lesið alla leið hingað niður sértu foreldri sjálf/ur og ef svo er þá vona ég að þessi póstur hafi gert tvennt. Hjálpað þér að muna þó ekki sé nema um stund að þú ert ekki ein/n að ströggla og mögulega að gefa þér nýtt tól að prófa.

Ef einhver vill setja sig í samband hvort sem er með ábendingar um betrumbætur á sögum framtíðar eða bara spjalla þá endilega sendið mér skilaboð.

Bestu kveðjur,
Þórlaug

Fífur og Fiður á Facebook

2 Comments

  1. Margrét Helga
    January 21

    Takk fyrir þetta :-) Snilldaraðferð sem þú notar og flott að hafa þetta sjónrænt…
    Og takk fyrir skemmtilegt blogg. Kíki hingað inn af Skreytum hús síðunni hennar Soffíu Daggar…þú ert góður penni :-)

    • Takk fyrir innlitið og hlýju orðin, mér hlýnaði alveg um hjartarætur. Alltaf gaman að sjá ný nöfn hérna og að heyra að fólk hafi gaman af párinu í mér. Vertu ávalt velkomin!

Comments are closed.